Fæðingarljósmyndun

Margar spurningar vakna þegar ég tala um fæðingarljósmyndun, ég ætla að reyna að svara hér flestum þeim fyrirspurnum sem mér hafa borist varðandi þær, en þú mátt alltaf senda mér fyrirspurn ef þú ert forvitin og vilt vita meira.

Að mínu mati er þetta ein fallegasta myndatakan sem hægt er að taka og ein af mínum allra uppáhalds. Það að fá að vera viðstödd þennan ólýsanlega fallega viðburð er eitthvað sem ég á erfitt með að setja í orð. Andrúmsloftið og orkan sem umlykur þessa stund er töfrum líkust og ég trúi því að þau sem hafa upplifað slíka stund eru sammála mér um það að orð eru fátæk í þessu samhengi. 

Myndirnar sem eftir sitja eru líklega þær dýrmætustu sem fjölskyldur geta eignast. Á sama tíma og þetta eru persónulegar myndir sem þurfa ekki að vera til sýnis fyrir neinn nema þá nánustu, þá eru slíkar myndir ein fallegasta list sem þú getur eignast. Makinn og ljósmóðir geta auðvitað smellt nokkrum myndum á símann, en að eiga ljósmyndir í gæða upplausn - teknar af fagmanni, er ekki sambærilegt.  



Hvenær er besti tíminn til að bóka?

Best er að hafa samband við mig sem fyrst eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að bóka mig. Fæðingar eru eins óútreiknanlegar og hægt er að sjá fyrir sér. Þær geta átt sér stað á ansi víðum tímaramma sem spannar þó nokkrar vikur og þær geta átt sér stað á öllum tímum sólahrings. Þegar þú bókar mig í fæðingarljósmyndun þá geri ég mitt allra besta til þess að vera á staðnum þegar stundin rennur upp. Til að mynda hef ég símann minn á náttborðinu, tilbúin að hlaupa af stað þegar að því kemur.  Konur hafa bókað mig stuttu eftir að þungunarpróf var tekið og konur hafa bókað mig með 5 í útvíkkun. Það er allur gangur á. 


Við hverju er að búast?

Þegar þú bókar mig þá er líklegt að við höfum hist áður, margar af þeim konum sem ég hef verið viðstödd fæðingu hjá hafa komið til mín í annarskonar myndatöku eða verið hjá mér í nuddi (já ég er líka heilsunuddari). Ef hinsvegar við höfum ekki hist áður þá vil ég hitta þig og maka þinn fyrir stóru stundina, þó það sé ekki nema í einn kaffibolla og smá spjall, það er svo mikilvægt að þið þekkið mig þegar ég kem til ykkar á fæðingarstundinni. 

Þegar kemur að stóru stundinni þá er mikilvægt að þú hringir í mig svo ég geti verið í startholunum. Fæðingar geta verið lengi að malla í gang og þær geta gerst hratt, ég fylgist grannt með og geri allt sem ég get til þess að vera viðstödd. Ég geng frá öðrum verkefnum og set þau á pásu til þess að geta verið viðstödd. Þegar að stóru stundinni kemur þá er markmið mitt að þú takir sem minnst eftir mér. Ég er þarna einungis til þess að skrá þessar dýrmætu heimildir og legg mig virkilega fram við það að vera hvorki fyrir þér, maka þínum né ljósmæðrum og læknum. Það er líklegast ekki fyrr en barnið er komið í fangið þitt, og þið þrjú búin að eiga stund saman, sem þið munið eftir mér.

Myndbirtingar

Mér finnst mikilvægt að það komi skýrt fram að þessar myndir eru þær allra heilögustu og ég hvorki birti þær né sýni þær neinum utanaðkomandi. Ég ber fulla virðingu fyrir því að þær eru eingöngu ætlaðar ykkur. Þær myndir sem birtast hér og á mínum miðlum eru birtar með góðfúslegu leyfi beggja foreldra.  Einnig finnst mér mikilvægt að það komi hér fram að þessi stund er ykkar, sem ég fæ að vera viðstödd og heimilda, allt sem gerist er einkamál og er ég bundin algjörum trúnaði.



Upphafið

Ég á sjálf þrjár dætur. Fæðingarnar mínar voru jafn ólíkar og þær eru margar. Þær eru allra dýrmætustu stundirnar sem ég hef fengið að eiga. Þrátt fyrir að þær hafi verið miserfiðar þá hefði ég ekki viljað breyta neinu, þær eru hluti að minni sögu og dætra minna. Fyrir 10 árum fékk ég að vera viðstödd fyrstu fæðinguna, sem er ekki mín eigin. Þegar ég var viðstödd fæðingu hjá litlu systur minni og fékk að verða vitni að því þegar systur dóttir mín leit dagsins ljós. Hún hringdi í mig af fæðingardeild Landspítalans, með 5 í útvíkkun, og sagði “Harpa viltu koma til mín og taka myndavélina þína með!” Þessi stund var ein sú magnaðasta sem ég hef upplifað. Þetta var áður en ég fór í ljósmyndanámið og byrjaði að starfa sem ljósmyndari, en þarna var hugmynd sáð. 


Spurt og svarað

Nærðu alltaf að vera viðstödd fæðinguna?

Ég hef blessunarlega náð að vera viðstödd allar þær fæðingar sem ég hef verið bókuð í, nema eina. Þar gerðust hlutirnir ansi hratt og konan fæddi barnið nokkrum mínútum frá fyrsta verk, -heima hjá sér. En ætlunin var að fæða á fæðingardeild Hss. Í því tilfelli var ég mætt nokkrum mínútum eftir fæðinguna og náði að mynda fyrstu stundirnar í lífi barnsins, auðvitað var svekkjandi að missa af fæðingunni sjálfri. Þetta var líklega ekki í síðasta skiptið sem ég næ ekki í tæka tíð en það er óumflýjanlegur hluti af þessu ferli, eins óútreiknanlegt og það er. 


En ef þú ert í annarri myndatöku, sofandi eða að gera eitthvað annað tengt persónulega lífinu?

Ég ber mikla virðingu fyrir bæði starfinu mínu og einkalífi, en þegar ég bóka fæðingarmyndatöku þá geri ég það með því hugarfari að ég legg allt annað til hliðar þegar að stóru stundinni kemur. Ég hef þurft að ganga út frá mikilvægum fjölskylduviðburðum til þess að vera viðstödd fæðingu, en fólkið mitt sýnir því fullan skilning því það þekkir nálgun mína í ljósmyndun. Ég er heimildarljósmyndari, starf mitt og einkalíf hafa oft lítil mörk og er samþætt. Þess vegna tek ég ekki að mér bókanir í fæðingarljósmyndun á stundum sem ég veit að ég verð mikið að ferðast eða með önnur verkefni sem ég get ekki gengið frá. 


Mig langar að hafa þig viðstadda fæðinguna en maka mínum langar það ekki?

Ég legg mikla áherslu á mikilvægi þess að bæði þú og maki þinn séuð á sömu blaðsíðu þegar kemur að fæðingarljósmyndun. Ef maki þinn er ekki 100% viss um að hann vilji hafa mig þá mæli ég ekki með að bóka mig. Makanum þarf að líða vel með það að hafa utanaðkomandi aðila viðstaddann á þessari stund og ég skil mjög vel þegar það á ekki við. Hinsvegar er alltaf hægt að koma í kaffibolla niðrí stúdíó og spjalla og sjá hvort makinn skipti um skoðun þegar hann hefur kynnst mér aðeins. Það hefur gerst, það hefur líka gerst að makinn skipti ekki um skoðun og ég hef fullann skilning á því. 


Hvernig er því háttað með greiðslur?

Greiðslur fara fram eftir myndatökuna, sama fyrirkomulag og allar aðrar myndatökur. Þetta eru hinsvegar einu myndatökurnar sem ég býð upp á greiðsludreifingu eða greiðslufrest, ástæðan er einfaldlega sú að þessar myndatökur eru mér kærar og mig langar að allir sem þess óska hafi kost á þeim.

En ef eitthvað gerist í fæðingunni?

Eins og með allt í þessu ferli er það óútreiknanlegt hvað gerist og hvernig það gerist. Þetta er eitthvað sem ég ræði við foreldrana fyrirfram og virði þeirra óskir hvað það varðar.





Previous
Previous

Hraðmyndatökur

Next
Next

Meðgangan